Loftlagsvegvísar atvinnulífsins

Vegasamgöngur

Vegasamgöngur

Staðan í dag

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá vega­samgöngum árið 2021 nam 860 þúsund tonnum CO2-íg. Losun jókst um 8,8% árið 2022 og nam 936 þúsund tonnum, sem er 20,8% aukning frá árinu 2005. Rafknúin ökutæki voru 6,5% af heildarfjölda ökutækja í lok síðasta árs sem dugði ekki til að vega upp á móti öðrum ökutækjum í flotanum og auknum akstri samhliða auknum efnahagsumsvifum. Nýskráningar rafknúinna ökutækja voru 34,6% af heildarfjölda nýskráninga fyrstu fimm mánuði ársins 2023.

Erfið staða skapar mikil tækifæri því hreinorku ökutæki eru nú til í meira úrvali sem hentar þörfum sífellt fleiri samhliða hraðri þróun í öllum ökutækjaflokkum. Margvísleg tækifæri eru til staðar við að draga úr losun frá vegasamgöngum og má flokka áskoranir og aðgerðir í fjögur viðfangsefni: 

1. Skipulag orkuskiptanna

2. Orkuöflun, flutningur og dreifing

3. Orkuáfyllingarinnviðir fyrir hreinorkuökutæki

4. Notkun ökutækja

278

þúsund ökutæki í umferð

Vegasamgöngur leika lykilhlutverk í auknum efnahagsumsvifum og bættum lífskjörum.

15%

vöxtur í losun í stað 55%

samdráttar árið 2030 en mikil tækifæri.

Stjórnvöld þurfa að taka stöðuna alvarlega og taka á orkuskiptaverkefninu og áskorunum sem því fylgja á djarfan og afgerandi en skipulegan hátt.
- Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.

Áskoranir

Það stefnir í metlosun árið 2023 og er því mikið verk fyrir höndum eigi að ná markmiðum stjórn­valda fyrir árið 2030. Því þurfa stjórnvöld að taka stöðuna alvarlega og taka á verkefninu og áskorunum sem því fylgja á djarfan, afgerandi og skipulegan hátt.

Árangur í orkuskiptum í vegasamgöngum veltur á bættu skipulagi orkuskiptanna með fyrirsjáanlegum, hag­kvæmum, samvirkum og mælanlegum aðgerðum, betri og aðgengilegri gögnum, menntun og stuðningi við fjárfestingar. Samgöngu­stefnan þarf að taka tillit til orku­skipta og hindranir í formi laga og reglna þurfa skjóta úrlausn auk þess að stjórnvöld sýni gott fordæmi og skapi fyrirsjáanleika.

Efla þarf almennings­samgöngur sem sannarlega uppfylla þarfir notenda og um leið auka umtals­vert hlut hreinorkuökutækja í árlegum ný­skráningum. Tryggja þarf næga raforku af endurnýjanlegum uppruna með lágu heildar­kolefnisspori á samkeppnishæfu verði, sterka flutnings- og dreifingarinnviði orku og þétt net öflugra orkuáfyllingarinnviða við stofnvegi, í þéttbýlis­kjörnum og við vinsæla áfangastaði um allt land sem þjóna þörfum íbúa, fyrirtækja og ferðamanna. 

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar.

Úrbætur

1.  Skipulag orkuskiptanna   

VEGASAMGÖNGUR OG STJÓRNVÖLD:

 • Stjórnvöld, atvinnulífið og heimilin koma öll að orkuskiptunum á einn eða annan hátt: Samræma þarf aðgerðir þessara hagaðila og tryggja að samræmi í vinnunni við orkuskiptaverkefnið og að fjármagn frá hinu opinbera nýtist á skilvirkan hátt.

STJÓRNVÖLD:

 • Skilvirka orkuskiptastjórn: Koma þarf á skilvirkara skipulagi við orkuskiptin þar sem ábyrgð er skýr, heildstæðar aðgerðir innleiddar; markmiðum, árangursmælikvörðum og niðurstöðum er fylgt eftir og niðurstöður birtar opinberlega. 
 • Orkuskiptastjórn skipuð: Koma á fót orkuskiptastjórn sem samanstendur af umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra auk fulltrúa atvinnugreina sem tóku þátt í loftslagsvegvísum atvinnulífsins. 

2. Orkuöflun, flutningur og dreifing

VEGASAMGÖNGUR OG STJÓRNVÖLD:

 • Tryggja flutning og dreifingu á raforku: Tryggja þarf að flutningur og dreifing orkunnar frá framleiðslustað sé með sem hagkvæmustum hætti, á réttum tíma, í nægjanlegu magni og á samkeppnishæfu verði. 
 • Geymsla orku: Skoða leiðir til að geyma orku við heimili og fyrirtæki sem hægt er að fylla á í lægðum en nýta á álagstímum. Kanna tækniþróun rafbíla með tvíátta hleðslutækni (e. bi-directional) og hvað nágrannalönd eru að gera til að nýta þessa tækni í samhengi við snjallmæla til að nýta bílana sem orkugeymslur og álagsjöfnun.

3. Orkuáfyllingarinnviðir fyrir hreinorkuökutæki  

VEGASAMGÖNGUR OG STJÓRNVÖLD:

 • Öflug uppbygging orkuáfyllingarinnviða: Hraða þarf uppbyggingu öflugs nets áfyllingarinnviða um allt land með markmið ESB um áfyllingarinnviði vegna orkuskipta að leiðarljósi. 

STJÓRNVÖLD:

 • Uppbygging samgönguinnviða: Uppbygging vegakerfis getur verið mikilvæg loftslagsaðgerð m.a. í gegnum styttri vegalengdir, betri vegi, jafnari aksturshraða. 
 • Markmið orkuskipta að leiðarljósi: Við uppbyggingu vegakerfis er mikilvægt að horfa til markmiða orkuskipta t.d. hvað varðar aðgengi að orkuáfyllingu, gæði vega og aðgengi á öllum árstímum.
 • Kortlagning áhrifa: Kortleggja þarf hvernig vegamannvirki hafa áhrif á orkuskipti og innleiða sjónarmið orkuskipta strax í hönnun vegamannvirkja.
 • Aðlaga gjaldskrá raforku eftir tíma sólarhrings vikudögum og árstíðum, til að dreifa álagi á hleðslustöðvar og bæta nýtingu. Gjaldskrár dreifiveitna má ekki vera hindrun við uppsetningu stórra hleðslustöðva, til að mynda vegna krafna um hærri gjöld vegna afltoppa og annað sambærilegt.

4. Notkun ökutækja    

VEGASAMGÖNGUR OG STJÓRNVÖLD:

 • Stjórnvöld, sveitafélög og atvinnulífið sem fyrirmyndir: Stjórnvöld, sveitarfélög og atvinnulífið þurfa stíga fram með öflugar kröfur sem miða að því að öll innkaup á ökutækjum og þjónustu á ökutækjum sé miðuð að hreinorkuökutækjum frá og með árinu 2025. 

STJÓRNVÖLD:

 • Orkuskiptum hraðað í gegnum skipulagsmál sveitarfélaga: Hægt er að koma á losunarfríum svæðum innan þéttbýlis, takmarka aðgengi jarðefnaeldsneytisknúinna ökutækja á ákveðnum svæðum og heimila einungis hreinorkuökutækjum að nýta flýtileiðir s.s. sérakreinar. 
 • Losunarfrí svæði: Skilgreina losunarfrí svæði í lögum og reglum sem snúa að skipulagsmálum sveitarfélaga. 
 • Endurskoðun regluverks: Uppfæra umferðarlög og skiltareglugerðir svo hægt sé að takmarka aðgengi og stýra ákveðnum svæðum s.s. miðbæjum og flýtileiðum. 
 • Forgangur hreinorkuleigubíla: Tryggja aðgengi leigubíla sem ganga fyrir hreinorku fram yfir jarðefnaeldneytisökutæki að leigubílastæðum í miðborg og miðbæjum. 

Um samstarfið

Leiðtogar vegasamgangna eru Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, Jón Gestur Ólafsson, gæða- og umhverfisstjóri Hölds og Magnús Svavarsson, eigandi Vörumiðlunar.

Hagaðilar

Þátttakendur í vinnustofum: Arctic Adventures, Avis/Alp, Bílaumboðið Askja, BL, Brimborg, GoCampers, Höldur, Reykjavik Excursion, Samskip, Snæland Grímsson, Teitur Jónasson og Vörumiðlun.

Hafa samband 

Bílgreinasambandið 

María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins og verkefnastjóri loftslagsvegvísis vegasamgangna:
maria@bgs.is 

Lesa ítarefni

278

þúsund ökutæki í umferð

Vegasamgöngur leika lykilhlutverk í auknum efnahagsumsvifum og bættum lífskjörum.

15%

vöxtur í losun í stað 55%

samdráttar árið 2030 en mikil tækifæri.