Loftlagsvegvísar atvinnulífsins

Kísiliðnaður

Kísiliðnaður

Staðan í dag

Heildarlosun CO2 frá framleiðslu kísils á Íslandi mældist um 722 þúsund tonn árið 2022. Þar undir fellur framleiðsla á afurð í ofnum, hitun og bökun á deiglum og rennum og notkun vinnuvéla. Losunin jókst frá árinu 2005 en þar hefur áhrif að starfsemi PCC BakkiSilicon hf. hófst eftir 2005 og því koma tölur vegna reksturs þess fyrirtækis ekki til álita fyrr en í tölum ársins 2022. Hins vegar hefur heildarlosun dregist saman þegar þessi tímabil eru borin saman og er langstærstur hluti þessa vegna breytinga á framleiðsluferlum, s.s. notkunar á lífrænum kolefnisgjöfum.

Þá er framleiðsla á kísil undirsett regluverki ETS-losunarheimilda en það kerfi er meginstjórntæki ESB, sem og Íslands og Noregs sem hafa undirgengist það kerfi, á sviði loftslagsmála og er ætlað að mynda hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hjá þessum ríkjum. Kerfi ETS felur þannig í sér hagræna hvata til að fjárfesta í nýjum tækjum og búnaði en þar að auki hefur aukin vitund um loftslagsmál ýtt undir breytta framleiðsluferla og fjárfestingu í tæknilausnum. Ferns konar áskoranir eru fram undan í framleiðslu á kísil til að ná markmiðum um samdrátt í losun árið 2030: 

1. Rekstrarumhverfi

2. Framleiðsla kísils 

3. Nýsköpun fyrir kolefnishlutleysi 

4. Annað 

37

milljarðar króna

Rekstrartekjur kísilveranna tveggja námu 37 milljörðum króna á árinu 2021 og höfðu aldrei verið meiri. Samanborið við árið 2017 hafa rekstrartekjur ríflega þrefaldast.

0,4-0,5

TWst

per ár af þeim 16-24 TWst sem þarf til að ná kolefnishlutleysi væri hægt að ná með framleiðslu á rafmagni með virkjun glatvarma án þess að gengið sé á náttúruauðlindir Íslands.

0,6%

Árið 2021 var hlutfall framleiðslu kísilafurða ríflega 0,6% af landsframleiðslu. Er það talsvert hærra en árin á undan og má fastlega gera ráð fyrir því að þetta hlutfall sé jafnvel hærra fyrir árið 2022.

Kísiliðnaðurinn gegnir lykilhlutverki í lausninni í átt að kolefnishlutlausri framtíð en aukin áhersla á sjálfbærni skapar mikil tækifæri fyrir greinina. Kísill er nauðsynlegt hráefni í fjölda hluta sem nauðsynlegir eru sjálfbærum lausnum til að mynda, endurnýjanlega raforku, raforku geymslu, rafvæðingu flutningstækja og stafræn þróun.
- Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem Ísland, og Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri PCC BakkiSilicon.

Áskoranir

Loftslagsverkefnin fram undan velta mikið á framboði tæknilausna og tækjabúnaðar sem nauðsynlegur er til að stuðla að umbreytingum innan geirans í átt að kolefnishlutleysi. Að sama skapi er mikilvægt að fyrirtæki hafi leiðir til að umbreyta útblæstri, glatvarma og öðrum straumum frá framleiðslu í frekari nýtingu og verðmæti. Kallar slíkt á endurskoðun á laga- og regluverki sem og öðrum hindrunum í vegi fyrir slíkri umbreytingu.

Grunnforsenda þess að vinna að loftslagsmarkmiðum og fara í úrbótatillögur er að til staðar séu grænir fjárhagslegir hvatar til að flýta fyrir kostnaðarsömum umbreytingum í átt að kolefnishlutleysi. Það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og kísiliðnaðar að skapa umgjörð svo greinin geti haldið áfram að leggja sitt af mörkum til þeirra nauðsynlegu skrefa sem stíga þarf í loftslagsmálum. 

Samhliða aðgerðum fyrirtækjanna munu framleiðsluvörur þeirra einnig hafa áhrif en nátengt aukinni áherslu á orkuskipti og loftslagsvænar tæknilausnir hefur eftirspurn eftir kísilmálmi aukist. Er kísilmálmur þannig mikilvægur hlekkur í umhverfisvænum orkuskiptum á heimsvísu og markast sú eftirspurn bæði af sérstökum eiginleikum kísilmálmsafurða sem og að þær eru framleiddar hér á landi með grænni orku. Samhliða aukinni eftirspurn eftir kísilmálmi hefur hérlend framleiðsla tekið breytingum á þá vegu að áhersla er lögð á framleiðslu á sérvörum í stað staðalvara. Vörur sem framleiddar eru hér á landi eru því mikilvægur hlekkur í virðiskeðju orkuskipta og aðgerða gegn loftslagsbreytingum. 

Aðgerðir í kísiliðnaði lúta að mestu leyti að áðurnefndu viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir, þ.e. ETS-kerfinu (e. Emissions Trading System), en þátttakendur í því kerfi eru fyrirtæki sem starfa í 27 ríkjum ESB ásamt fyrirtækjum á Íslandi, í Noregi og Liechtenstein. Einnig hafa einstaka aðgerðir snertifleti við ESR-regluverk (e. Effort Sharing Regulation) um sameiginlegar efndir ríkja innan ESB og EES-landa um að draga úr gróðurhúsalofttegundum. Undir ESR fellur til dæmis losun frá skipum sem sigla á milli íslenskra hafna, orkuframleiðsla og smærri iðnaður, F-gös, landbúnaður og úrgangur.

Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem Ísland.

Úrbætur

1.  Rekstrarumhverfi  

KÍSILIÐNAÐUR:

 • Innleiða á þrepaskiptar kröfur um rútur knúnar af endurnýjanlegum orkugjöfum og setja kröfur um rafknúna bíla hjá bílaleigum. 
 • Samnýta þarf ferðir á iðnaðarsvæði og bæta skráningar á viðskiptaferðum. Einnig stendur til að framkvæma könnun á ferðavenjum og viðhorfi meðal starfsfólks. 
 • Hleðsluinnviðum verður komið upp fyrir starfsfólk og ökutækjum og vélum í eigu fyrirtækja skipt út fyrir rafknúin tæki. 
 • Endurnýting á deiglubrotum, kísilryki/forskiljudufti og uppsópi af blönduðum hráefnum. Auk þess verða skoðaðar leiðir til að endurnýta efni sem fellur til við endurfóðrun.
 • Græn skref í úrgangsmálum verða innleidd og endurvinnslufarvegir innanlands kortlagðir.
 • Aukaafurðir sem myndast í framleiðslu verða fullnýttar.

2. Framleiðsla kísils   

2.1 Framleiðsla á afurð í ofnum 

KÍSILIÐNAÐUR:

 • Búnaði sem notar olíu eða gas sem orku­gjafa verður skipt út fyrir rafhitunarbúnað og hlutfall sjálfbærnivottaðs lífræns kolefnis í framleiðsluuppskriftum verður aukið, en um er að ræða eina stærstu aðgerð í átt að kolefnishlutleysi.

KÍSILIÐNAÐUR OG STJÓRNVÖLD:

 • Tryggja verður að skilgreind séu sérstök tollanúmer fyrir lágkolefnisafurðir sem fluttar eru frá Íslandi.

2.2 Hitun og bökun á deiglum og rennum 

KÍSILIÐNAÐUR:

 • Rafvæða verður vinnuvélar sem nú eru drifnar áfram með dísil og auka innkaup á lífrænu eldsneyti fyrir þau tæki sem ekki er hægt að rafvæða. Hækka skal íblöndunarhlutfall eldsneytis fyrir þau tæki sem hvorki er hægt að rafvæða né nota lífrænt eldsneyti á. 
 • Innleiða skal kröfur til þjónustuaðila um aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa og hvetja með markvissum hætti til skila á losunarbókhaldi frá birgjum ásamt því að veita smærri birgjum og þjónustuaðilum stuðning í orkuskiptum og loftslagsmálum. 

KÍSILIÐNAÐUR OG STJÓRNVÖLD:

 • Skipta þarf út búnaði sem notar olíu eða gas sem orkugjafa fyrir rafhitunarbúnað.

3. Nýsköpun fyrir kolefnishlutleysi  

KÍSILIÐNAÐUR OG STJÓRNVÖLD:

 • Þróa og fjárfesta þarf í búnaði sem fangar og þéttir kolefni úr afgasi ofna. 
 • Hefja skal og/eða halda áfram formlegu samstarfi um förgun fangaðs koltvísýrings og kanna fýsileika á framleiðslu græns rafeldsneytis með fönguðu kolefni. 
 • Nýta skal glatvarma til orkuvinnslu eða hitaveitu.

4. Annað

 • Framhald verður á formlegu samstarfi um þróun grænna iðngarða. 

Um samstarfið

Leiðtogar kísiliðnaðar eru Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem Ísland ehf., og Gestur Pétursson, forstjóri PCC BakkiSilicon hf. 

Hagaðilar

Elkem og PCC. Umhverfisstofnun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samtök iðnaðarins, aðilar sem koma að ETS, Aker solutions, Elkem ASA, PCC, Landsvirkjun, Skatturinn, utanríkisráðuneytið. 

Hafa samband 

Samtök iðnaðarins

Lárus M. K. Ólafsson, verkefnisstjóri loftslagsvegvísis kísiliðnaðar:
larus@si.is

Lesa ítarefni

37

milljarðar króna

Rekstrartekjur kísilveranna tveggja námu 37 milljörðum króna á árinu 2021 og höfðu aldrei verið meiri. Samanborið við árið 2017 hafa rekstrartekjur ríflega þrefaldast.

0,4-0,5

TWst

per ár af þeim 16-24 TWst sem þarf til að ná kolefnishlutleysi væri hægt að ná með framleiðslu á rafmagni með virkjun glatvarma án þess að gengið sé á náttúruauðlindir Íslands.

0,6%

Árið 2021 var hlutfall framleiðslu kísilafurða ríflega 0,6% af landsframleiðslu. Er það talsvert hærra en árin á undan og má fastlega gera ráð fyrir því að þetta hlutfall sé jafnvel hærra fyrir árið 2022.